VIKA 43 2014

Jákvæður lífsstíll og sjálfsmyndVika 43 stendur yfir dagana 20. - 27. október og er forvarnaverkefni Samstarfsráðs um forvarnir, en þá er sett kastljós á ýmislegt er varðar forvarnir meðal barna og ungmenna.  Að þessu sinni er áherslan á lífsstíl og sjálfsmynd og vakin athygli á því góða starfi með ungu fólki sem lítur að lífsstíl og félagsstarfi í nærsamfélaginu (heimabyggð).

Þessa viku er alla dagana vakin athygli á virkri þátttöku barna og ungmenna í hvers kyns félags- og tómstundastarfi en á umliðnum árum hefur þátttaka í skipulögðu félagsstarfi stóraukist með bættri aðstöðu og er ótvírætt grunnurinn í þeim góða árangri sem náðst hefur í forvörnum.  Með eflingu þessara samtaka og félagsstarfs sem stendur börnum og foreldrum þeirra til boða hefur það einnig gerst að úrræðin hafa færst nær þátttakendum og heimilum þeirra og þannig fært heimafólki meiri ábyrgð og hlutdeild í forvarnastarfi.  Árangurinn er eftir því svo góður að eftir er tekið, m.a. út fyrir landsteinana.

Áminningar um Viku 43 eru sýnilegar á fréttaveitum og samfélagsmiðlum á netinu og þannig reynt að vekja einstaklinga til umhugsunar um mikilvægi samstarfs í forvörnum.