VIKA 43 vímuvarnavika 2012


 
Yfirskrift Viku 43 er „óbein áhrif áfengisneyslu“ þar sem ýmsar hliðar þess máls eru til umræðu.  Fimmtudaginn 25. október birtist auglýsing í fjölmiðlum með yfirskrift Viku 43 og kynnt þá til sögunnar beiðni verkefnisins eftir röddum almennings, viðhorfum og reynslu. Sama auglýsing birtist síðan laugardaginn 27. október og sambærilegar skjámyndir um helgina.  Í vímuvarnavikunni í ár er fyrst og fremst verið að safna reynslu og skoðunum fólks á áhrifum óbeinnar áfengisneyslu sem síðan verður birt á heimasíðunni www.vvv.is til fróðleiks fyrir aðra ásamt samantektum um óbeinu áhrif áfengisneyslunnar.

Er áfengisneysla einkamál neytandans?

Hvað finnst þér?
Sendu okkur þitt sjónarmið með tölvupósti: vika43@vvv.is

 
Hver eru óbein áhrif áfengisneyslu? Áfengisneysla hefur umtalsverð áhrif á fleiri en eingöngu neytendurna sjálfa. Augljósust eru tengsl áfengis í ýmsum slysum, og ofbeldisverkum þar sem ölvun og önnur ábyrgðarlaus neysla á í hlut og fjöldi barna býr við áfengisvanda í fjölskyldum sínum og þarf að þola vanlíðan og þjáningu. Mörg umferðarslys verða vegna ölvaðra ökumanna og leiða af sér meiðsl og dauða saklauss fólks. Áfengisneysla kvenna á meðgöngu er ógn við heilsu og þroska barnanna. Margir forðast að vera á ferli um helgar eða ákveðnum tímum í miðbæjum eða ákveðnum stöðum vegna ótta við ofbeldisverk drukkins fólks og margir verða fyrir skemmdum á eigum sínum. Áfengisneysla getur einnig dregið úr starfshæfni, framleiðni og öryggi á vinnustöðum. Áreitni og truflun af hendi ölvaðs fólks er íþyngjandi og mörgum til ama. Þannig er það grundvallarsjónarmið að frelsi eins til athafna megi ekki vera á kostnað frelsis og öryggis annarra lítilsvirt. Fjárhagslegur kostnaður samfélagsins vegna áfengisneyslu er mikill og snertir margar stofnanir. Sá kostnaður kemur niður á samfélaginu öllu.

Í Viku 43 verður reynt að varpa ljósi á þessa hlið áfengisneyslunnar og fá fram raddir fólks (þína rödd), reynslu og hugmyndir um úrbætur.
Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að neysla áfengis skaði aðra?
Hvaða áherslur þurfa að vera í forvarnastarfinu til þess að draga úr ölvunardrykkju.

Segðu frá þinni reynslu
Sendu okkur hugleiðingar og/eða frásagnir af reynslu þinni af því hvernig áfengisneysla (ölvun) annarra hefur komið við þig. Sögurnar verða birtar á heimasíðu Viku 43 á  www.vvv.is undir nafnleynd. Við biðjum einnig um að fólk sé ekki nafngreint í frásögnum.  Sendu söguna til vika43@vvv.is, sagan gæti birst á þessum vef, algjörlega undir nafnleynd.