Hvað er Vika 43?

Vika 43 – Forvarnavikan er árleg forvarnavika SAFF – Samstarfs félagasamtaka í forvörnum þar sem sjónum er beint að ýmsum forvarnamálum, vakin athygli á hlutverki og forvarnastarfi félagasamtaka og gildi samstarfs í forvörnum. SAFF starfar náið með FRÆ, Fræðslu og forvörnum sem heldur utan um samstarfið, undirbýr verkefni og leiðir framkvæmd þeirra í samstarfi við stjórn SAFF og aðildarsamtök þess.

SAFF er samstarfsvettvangur íslenskra félagasamtaka í forvörnum, stofnaður árið 2004. Aðildar samtök SAFF vinna að heilsueflingu og áfengis-, tóbaks- og vímuefnaforvörnum á vettvangi mannræktar, velferðar, félagsmála, samfélagsþróunar, uppeldis- og skólamála, íþróttamála og tómstundastarfs. Samstarfið byggist á virðingu fyrir fjölbreytni, ólíkri aðkomu samtaka í forvörnum og mismunandi áherslum.

SAFF leggur sérstaka áherslu á að börn og unglingar njóti verndar gegn skaðsemi ávana- og vímuefna, enda eru þau sérstaklega berskjölduð gagnvart neyslu þeirra. Öll börn og ungmenni eiga rétt á að alast upp vernduð fyrir neikvæðum afleiðingum ávana- og vímuefnaneyslu eins og mögulegt er. Meðal annars er mikilvægt að koma í veg fyrir eða fresta upphafi neyslu áfengis og annarra vímuefna eins og hægt er.

Með samstarfi sínu á vettvangi SAFF vilja aðildarsamtökin: 

  • Efla samstarf sín á milli og vinna að viðurkenningu á mikilvægi félagasamtaka í heilsueflingu og forvörnum. 
  • Kalla eftir og taka með formlegum hætti þátt í að móta opinbera stefnu í forvörnum.  Þrýsta á stjórnvöld um að tryggja fjármagn til forvarna. 
  • Veita stjórnvöldum stuðning við framkvæmd opinberrar stefnumörkunar og framkvæmd hennar,    en jafnframt veita stjórnvöldum aðhald hvað það varðar. 
  • Eiga frumkvæði að því að taka upp ýmis mál sem varða forvarnir.