Vika 43 - Forvarnavikan 2015

Líkar þér við þig?

OPNUN VIKU 43
Föstudaginn 16. október kl. 15 var opnun verkefnisins í húsakynnum UMFÍ í Sigtúni 42 en þangað mættu fulltrúar aðildarsamtaka verkefnisns og þátttakendur í SAFF hópi félagasamtaka í forvörnum.  Hildur Helga Gísladóttir formaður SAFF bauð fólk velkomið og kynnti aðdraganda þess að Samstarfsráð félagasamtaka hefði blásið til verkefna eins og Vika 43 er.  Guðni Björnsson, verkefnastjóri FRÆ kynnti yfirlýsingu Viku 43 og sagði frá öðrum atriðum vikunnar sem framundan væru.

   

 Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra tók við yfirlýsingu Viku 43
Það var stjórn SAFF, formaðurinn Hildur Helga Gísladóttir frá Kvenfélagasambandi Íslands, Guðlaug Guðjónsdóttir frá Krabbameinsfélaginu og Guðni Björnsson frá FRÆ sem heimsótti félags- og húsnæðuismálaráðherra þann 20. október til að afhenda ráðherra, sem fulltrúa ríkisstjórnar Íslands, yfirlýsingu Viku 43 í innrömmuðu skjali til varðveislu og geymslu.  Eygló vildi koma þökkum sínum til þeirra 25 samtaka sem standa að þessu mikilvæga forvarnaverkefni og öðru félagsstarfi á þeirra sviðum, en fyrir henni er þema þessarar viku henni hugleikið auk þess sem stjórnvöldum finnst dýrmætt að vita um það öflugt forvarnastarf sem þessir aðilar standa fyrir á hverjum tíma.  Afleiðingar vímuefnaneyslu eru margvíslegar og mikið af þeim vandamálum endar á borði félagsmálaráðherra sem gjarnan vildi að þeim fækkaði sem lentu í miklum félagslegum erfiðleikum, þá væri gott að vita af öflug starfi til að koma í veg fyrir vandann.  Yfirlýsingin er undirrituð af 25 félagasamtökum en hér má sjá textann í PDF formi.

Sjónvarpsþáttur á Hringbraut
Mánudaginn 19. okóber var fjallað um málefni Viku 43 í þætti á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í þættinum Heilsa sem er í umjón Gigju Þórðardóttur. Þar var sagt frá Viku 43 og viðtal tekið við Hrefnu Sigurjónsdóttur framkvæmdastjóra Heimilis og skóla um mikilvægi þess að móta jákvæða sjálfsmynd meðal barna og unglinga en Hrefna stendur að verkefninu fyrir hönd sinna samtaka.  Hér má sjá þáttinn í heild sinni en viðtalið við Hrefnu er í byrjun hans.


Náum áttum morgunverðarfundur í Viku 43
Í samstarfi við Náum áttum fræðsluhópinn var haldinn morgunverðarfundur miðvikudaginn 21. október á Grand Hotel.   Fundurinn var tileinkaður þema vikunnar; sjálfsmynd og forvarnir og voru að þessu sinni fengnir 3 fyrirlesarar til að fjalla um sjálfsmynd út frá ólíkum sjónarhornum; Hrefna Sigurjónsdóttir fjallaði um fjölskylduna og snjalltækin, Bragi Sæmundsson sálfræðingur fjallaði um sjálfstal og mikilvægi þess og Harpa Þórðardóttir hjá Foreldrahúsi sagði frá sjálfsstyrkingu unglinga sem flosnuðu úr námi.  Fundurinn var vel sóttur en efni hans má sjá á upptöku þáttarins HÉR en hér má sjá dagskrá fundarins PDF á Grand.

Hér má sjá erindi Hrefnu sem birtist í heilu lagi á visir.is.