Í lok Viku 43 tók velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson við innrömmuðu eintaki af „yfirlýsingu Viku 43“ sem var undirrituð í október af fulltrúum 20 félagasamtaka ásamt velferðarráðherra og umboðsmanni barna.  Með því að afhenda fulltrúa stjórnvalda þetta veglega eintak af yfirlýsingunni er Samstarfsráð um forvarnir að minna á mikilvægi samstarfs yfirvalda og frjálsra félagasamtaka í landinu þegar kemur á vímuvörnum og þar með skipan þeirra mála til framtíðar.  Velferðarráðherra hefur sýnt forvörnum mikinn áhuga og skilning og m.a. lagt nafn sitt við verkefnið „Vika 43“, sem er gott dæmi um viðtækt samstarf og framlag grasrótarinnar í málaflokki sem varðar mjög velferð og hag komandi kynslóða.  Samstarfsráð um forvarnir mun reyna á næstu vikum að færast í viðameiri verkefni í forvörnum og liggur þeirri hugmynd m.a. til grundvallar þetta samstarf frjálsra samtaka og yfirvalda. 

Það voru fulltrúar Samstarfsráðs um forvarnir, þeir Guðni R Björnsson og Árni Einarsson sem afhentu ráðherra skjalið (frétt ráðuneytis).


Undirrituð yfirlýsingu Viku 43 um að virða beri rétt barna til lífs án neikvæðra afleiðinga áfengis- og vímuefnaneyslu
 
Þátttakendur Viku 43 ásamt ráðherra Í tilefni af Viku 43, Vímuvarnaviku 2011 undirrituðu fulltrúar tuttugu félagasamtaka, umboðsmaður barna og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra yfirlýsingu þar sem hvatt er til þess að réttur barna til lífs án neikvæðra afleiðinga áfengis- og vímuefnaneyslu sé virtur MYNDIR.

Kveðið er á um þennan rétt barnanna m.a. í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, stefnumörkun Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og hjá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.

Í yfirlýsingunni er bent á mikilvægi þess að börn og ungmenni hafni neyslu áfengis og annarra vímuefna, enda stafi þeim ýmis hætta af neyslu þeirra. Sterk tengsl séu á milli áfengis- og vímuefnaneyslu annars vegar og ofbeldis, óábyrgs kynlífs, umferðarslysa og ýmissa slysa og óhappa, hins vegar. Einnig er bent á að mörg börn og ungmenni verði einnig fórnarlömb neyslu annarra, innan fjölskyldu sem utan, s.s. vegna vanrækslu, fátæktar, ofbeldis, misnotkunar og sundraðra fjölskyldna.

Það er ósk þeirra sem standa að yfirlýsingunni að fram fari umræða um hvernig þessi réttur barnanna er virtur á ýmsum sviðum samfélagsins, s.s. við stefnumótun og lagasetningu, í uppeldis- og skólastarfi, íþrótta- og tómstundastarfi og hvarvetna þar sem börn koma við sögu.

 

Þema vikunnar 2011: 
Réttur barna á Íslandi til lífs án neikvæðra afleiðinga áfengis- og vímuefnaneyslu

Vika 43, vímuvarnavikan, verður 23. – 30. október í ár en þetta er 8. árið sem þessi vika er tileinkuð vímuvörnum. Vika 43 er vettvangur félagasamtaka sem hafa forvarnir að markmiði starfs síns eða vilja leggja vímuvörnum lið, til þess að vekja athygli á forvarnastarfi og áfengis- og vímuefnamálum; varpa ljósi á viðfangsefni forvarna og kynna sérstaklega starf sem unnið er á vettvangi félagasamtaka; vekja athygli landsmanna á mikilvægi forvarna, einkum forvörnum gagnvart börnum og unglingum og; virkja þekkingu, styrk og samstöðu grasrótarsamstarfs til eflingar forvarnastarfs.

 
Að þessu sinni er í viku 43 athygli beint að rétti barna og ungmenna til vímulauss lífs og verndun þeirra gegn neikvæðum áhrifum neyslu áfengis og annarra vímuefna, eins og mælst er til í yfirlýsingu aðildarríkja Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá árinu 2001(1) og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (2). Þennan rétt barna þarf að verja með ýmsum hætti og í vikunni verður kastljósi beint að því í hverju þessi réttur felst og hvernig Íslendingar standa sig hvað þetta varðar.
 
crc.htm#art33

Dagskrá vímuvarnaviku 2011:
Vikuna 23. til 29. október verður vakið með ýmsum hætti athygli á því hvernig við getum verndað rétt barna fyrir vandamálum vímuefnaneyslu.  Umræðum, greinaskrifum, áskorunum, fundum og auglýsingum verður komið á framfæri með ýmsum hætti í sjónvarpi, útvarpi, dagblöðum og netmiðlum. 

Vika 43 - Samfélagið í nærmynd RUV1 viðtal:
Í viku 43 var fjallað um verkefnið í útvarpsþættinum Samfélagið í nærmynd en þar sátu fyrir svörum Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna og Árni Einarsson, framkvæmdastjóri FRÆ.  Hér má nálgast viðtalið í heild.

 
Undirritun yfirlýsingar Viku 43 - blaðamannafundur
Undirritun yfirlýsingar Viku 43 fer fram í sal KFUM við Holtaveg föstudaginn 28. október nk. kl. 15.00.  Þangað er fulltrúum félagasamtaka í verkefninu Vika 43 boðið að koma og undirrita yfirlýsingu Viku 43 en að auki munu skrifa nafn sitt á hana við þetta tækifæri velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson og umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir.
Yfirlýsingunni verður í framhaldi dreift til fjölmargra aðila sem fara með málefni forvarna á Íslandi; skóla, stofnana, stjórnenda, heimila, fagaðila og samtaka til hvatningar og upplýsingar um þennan mikilvæga rétt barna til lífs án áreitis neikvæðra afleiðinga áfengis- og vímuefnaneyslu.