Vímuvarnavikan hafin

kortin12

Í dag hófst svokölluð Vímuvarnavika 2005. Hliðstæð vika var haldin á sama tíma í fyrra og fyrirhugað að um árlegan viðburð verði að ræða.Vikan er samstarfsverkefni fjölmargra félagasamtaka sem starfa að forvörnum og er hugsuð sem vettvangur félagasamtaka sem vilja leggja forvörnum lið og/eða hafa forvarnir að markmiði starfs síns og ætlað að: 

Vera vettvangur fyrir samstarf félagasamtaka um að vekja athygli á áfengis- og vímuefnamálum, einkum forvörnum.

Varpa ljósi á viðfangsefni forvarna og það starf sem unnið er á vettvangi félagasamtaka.

Vekja athygli landsmanna á mikilvægi forvarna, einkum forvörnum gagnvart börnumog unglingum.

Virkja þekkingu, styrk og samstöðu grasrótarsamstarf til eflingar forvarnastarfs. 

Í ár er viðfangsefni Vímuvarnaviku að varpa ljósi á tengsl upphafsaldurs áfengisneyslu og aukinnar áhættu á ýmsum vanda ungmenna, s.s. neyslu annarra vímuefna. Vikunni er einnig ætlað að vekja athygli á mikilvægi þess að stuðlað sé að því að börn og unglingar neyti ekki áfengis og benda á ábyrgð alls samfélagsins í því skyni. Með Vímuvarnaviku 2005 vilja aðstandendur hennar efla vitund og ásetning samfélagsins um að nauðsynlegt sé að hækka byrjunaraldur áfengisneyslu frá því sem nú er.

Rannsóknir sýna að því yngri sem börn hefja neyslu áfengis og annarra vímuefna þeim mun hættara er við að áfengi og önnur vímuefni valdi þeim erfiðleikum, bæði í bráð og lengd. Rannsóknir sýna að tengsl eru á milli ýmissa neikvæðra hliða áfengis- og vímuefnaneyslu og þess að hefja neyslu áfengis á unga aldri.
 
Á grundvelli þessara vitneskju er því mikil áhersla lögð á að börn og unglingar neyti ekki áfengis og annarra vímuefni og á þessu byggjast m.a. markmið heilbrigðisáætlunar og ýmis önnur stefnumörkun í áfengis- og vímuefnamálum.
 
Vímuvarnavika 2005 hófst formlega með kynningu í félagsmiðstöðinni Ásnum í Áslandsskóla í Hafnarfirði í dag. Þar var frá því sagt að til þess að koma boðskap og efni Vímuvarnavikunnar á framværi verður efnt til ýmissa verkefna. Sameiginleg yfirlýsing forsvarsmanna þeirra 19 samtaka sem standa að vikunni var undirrituð á kynningunni og verður hún birt í fjölmiðlum. Einnig var sagt frá vakningarátaki sem verður í fjölmiðlum og víðar. Höfundar þess eru Helena Jónsdóttir og Þorvaldur Þorsteinsson. Haldið verður málþing, félagasamtök kynna starf sitt og forvarnaverkefni með ýmsum hætti, haldin verður minningarathöfn fyrir fórnarlömb vímuefnaneyslu. Vikunni lýkur formlega laugardaginn 22. október nk. með skemmtidagskrá í Ráðhúsi Reykjavíkur kl. 14.30. Dagskráin er í höndum hins velþekkta skemmtikrafts Arnar Árnasonar og er öllum opin. Með því að ljúka vikunni á þennan hátt segjast forsvarsmenn Vímuvarnaviku 2005 vera að minna á lífskraftinn, að lífið sé þess virði að lifa því farsællega, með öðrum orðum að vikan endi á óði til lífsins.
 
Vímuvarnavika 2005 heldur úti vefsíðunni www.vvv.is þar sem er að finna nánari upplýsingar um vikuna og dagskrá hennar.