VÍMUVARNAVIKA 2007

 

Foreldrar upplýstir um málefni forvarna

Vímuvarnavika sem stendur dagana 13. – 20. október nk.er samstarfsverkefni tuttugu félagasamtaka og er nú haldin í fjórða sinn. Markmið vikunnar er að: ?
 
  1. Vekja athygli á hversu mikilvægt það er að börn og unglingar fresti sem lengst að hefja neyslu áfengis.
  2. Varpa ljósi á og koma á framfæri upplýsingum um þekkt tengsl upphafsaldurs áfengisneyslu og aukinnar áhættu á ýmsum vanda, s.s. neyslu annarra vímuefna.
  3. Vekja athygli á mikilvægi þess að stuðlað sé að því að börn og unglingar neyti ekki áfengis og ábyrgð alls samfélagsins í því skyni.
  4. Efla vitund og ásetning samfélagsins um að nauðsynlegt sé að hækka byrjunaraldur áfengisneyslu frá því sem nú er.
Rannsóknir sýna að því yngri sem börn hefja neyslu áfengis og annarra vímuefna þeim mun hættara er við að áfengi og önnur vímuefni valdi þeim erfiðleikum, bæði í bráð og lengd. Rannsóknir sýna að tengsl eru á milli ýmissa neikvæðra hliða áfengis- og vímuefnaneyslu og þess að hefja neyslu áfengis á unga aldri, s.s. að því fyrr sem neysla hefst þeim mun:
 
  1. Meiri líkur eru á vandamálum í æsku, s.s. samskiptavanda við foreldra og fjölskyldu;
  2. Meiri líkur eru á vandamálum tengdum námi og skólagöngu;
  3. Meiri líkur eru á hegðunarvanda;
  4. Meiri líkur eru á neyslu ólöglegra vímuefna;
  5. Meiri líkur eru á misnotkun og mikilli og skaðlegri áfengisneyslu á fullorðinsaldri.
Aðstandendur vikunnar segja að á grundvelli þessarar vitneskju sé það eitt brýnasta viðfangsefni forvarna að börn og unglingar neyti hvorki áfengis né annarra vímuefni og að mikilvægt sé að hækka byrjunaraldur áfengisneyslu eins og hægt sé frá því sem nú er.