Heilbrigðisráðherra kynnir drög að frumvarpi um að sömu reglur gildi um sölu, markaðssetningu og takmarkanir á neyslu á rafsígarettum og gilda um tóbak

Heilbrigðisráðherra hefur lagt fram til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 6/2002 umtóbaksvarnir, með síðari breytingum, sem áformað er að leggja fram á núverandi þingi. Frumvarpið kveður á um að settar verði reglur varðandi heimildir til sölu, markaðssetningar og neyslu á rafsígarettum. Enn fremur verður hluti 20. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/40/ESB innleiddur, en ákvæðið fjallar um rafsígarettur. Í drögum að frumvarpinu felst fyrst og fremst að settar verði reglur sem takmarka heimildir til að neyta rafsígarettna. Með frumvarpinu er lagt til að sambærilegar reglur gildi um neyslu rafsígarettna og gilda um neyslu tóbaks, þ.e. óheimilt verður að neyta rafsígarettna í þjónusturýmum stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram, þ.m.t. í íþrótta- og tómstundastarfi. Óheimilt verður að neyta rafsígarettna í skólum, á opinberum samkomum, á heilsugæslustöðum og heilbrigðisstofnunum. Sömu undantekningar verða gerðar og gilda varðandi tóbak. Lagt er til í drögum að frumvarpinu að sömu aldurstakmörk gildi varðandi kaup á rafsígarettum og áfyllingarílátum og gilda um tóbak. Sama gildir um heimildir til að selja rafsígarettur og áfyllingarílát. Þá er lagt til í drögum að frumvarpinu að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð um merkingar á rafsígarettum og áfyllingarílátum, líkt og gert er með tóbak. Er það liður í innleiðingu tilskipunar 2014/40/ESB. Óskað er eftir að umsagnir verði sendar velferðarráðuneytinu í tölvupósti á póstfangið: postur@vel.is eigi síðar en 24. febrúar 2017.

Sjá: Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 6/2002 um tóbaksvarnir, með síðari breytingum.

Samstarf félagasamtaka í forvörnum, SAFF, setur af stað undirskriftarsöfnun um að rafsígarettur falli undir tóbaksvarnalög

Samstarf félagasamtaka í forvörnum, SAFF, vill að brugðist sé við aukinni notkun rafsígaretta meðal ungmenna sem nýjar rannsóknir sýna. Samkvæmt þeim hafa rúmlega 25% nemenda í 10. bekk prófað rafrettur.

Góður árangur hefur náðst hér á landi í að ná niður tóbaksreykingum ungmenna þannig að vakið hefur heimsathygli. Þess vegna er það áhyggjuefni að notkun á rafrettum skuli á stuttum tíma hafa náð svona mikilli útbreiðslu meðal unga fólksins. Mikilvægt er að bregðast fljótt við, m.a. í ljósi rannsókna sem sýna að unglingar sem nota rafsígarettur eru líklegri til þess að leiðast út í sígarettureykingar og aðra tóbaksneyslu. Markaðssetning á rafsígarettum beinir einnig spjótum að ungmennum í umtalsverðum mæli, m.a. með notkun bragðefna. Þótt rafsígarettur kunni að gagnast þeim sem vilja losna við aðra skaðlega notkun nikótíns þá er sú þróun sem við blasir varðandi rafsígarettur ógnun við góðan árangur í tóbaksvörnum meðal ungmenna og kallar á tafarlaus viðbrögð.

SAFF vill að leyfi til sölu á rafsígarettum verði háð ströngu eftirliti og að rafsígarettur falli undir tóbaksvarnalög, m.a. til þess að takmarka aðgang barna og ungmenna að þeim og vernda þá sem ekki hafa áhuga á að anda að sér nikótíni og öðrum óæskilegum efnum frá rafsígarettum. Leggðu því lið með því að skrifa undir áskorunina.

Ungmennum sem hafa prófað rafrettur hefur fjölgað mikið á stuttum tíma

Í erindi sem Margrét Lilja Guðmundsdóttir hjá Rannsóknum og greiningu hélt á kynningarfundi SAFF, Samstarfs félagasamtaka í forvörnum, 2. nóvember síðastliðinn kom fram að um 11%  fleiri börn í 10. bekk grunnskóla hafa prófað rafrettur í ár en í fyrra. Tæplega 25% segjast nú hafa prófað rafrettur. Einungis um 3% barna í þessum aldurshópi segjast reykja daglega. Það er því ljóst að rafrettan nær að stærstum hluta til barna sem ekki nota tóbak að staðaldri. 

Ekkert eftirlit er með sölu á rafsígarettum

Notkun á rafsígarettum hefur aukist mjög hér á landi undanfarin ár. Hér á landi eru seldar sterkar áfyllingar á rafrettur án viðvarana og merkinga og jafnvel með fölskum innihaldslýsingum.

Ekkert eftirlit er hins vegar með sölu á þeim ólíkt til dæmis sölu á sígarettum. Verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá Landlækni óttast að rafretturnar verði til þess að unglingar langt undir lögaldri þrói með sér nikótínfíkn.

,,Nauðsynlegt að skýra lög og reglur um rafsígarettur sérstaklega,“ segir Gísli Rúnar Gíslason, deildarstjóri rannsóknardeildar Tollstjóra.

Sjá nánar á ruv.is.

Vafasamar fullyrðingar um rafrettur

Finnst okkur í lagi að dreifa neysluvöru sem víðast, ef hún inniheldur minna magn af eiturefnum en sú sem styttir líf um helming neytenda? Að þessu spyr Lára G Sigurðardóttir læknir og fræðslustjóri Krabbameinsfélags Íslands í grein sem birt var á vefsíðunni www. heilsanokkar.is í maí 2016. Í greininni fjallar hún um ýmsar fullyrðingar um meint skaðleysi rafretta. Eitt af því sem hún bendir á er að ungum börnum getur stafað bráð hætta af nikótínvökvum sem gjarnan eru seldir í sælgætisbúningi. ,,Ef barn drekkur nikótínvökva getur það veldið öndurstoppi og dauða,“ segir Lára meðal annars.

Sjá alla greinina hér.

Hefta verður útbreiðslu rafretta

Í grein sem birtist á visir.is í janúar 2016 og undirrituð var af 17 einstaklingum sem vinna við krabbameinsmeðferð og krabbameinsforvarnir segir meðal annars: ,,Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur varað við útbreiðslu rafretta og hvetur ríki heims til að setja hertar reglugerðir um notkun þeirra auk þess að mælast til að sömu lög gildi um rafrettur og sígarettur. Við teljum mikilvægt að slík lög verði sett hér á landi, ekki síst til að vernda rétt þeirra sem ekki kjósa að anda að sér gufum frá rafrettum. Á Íslandi hefur stefna í tóbaksforvörnum skilað góðum árangri. Með því að leyfa rafrettureykingar er hætta á að afturför verði á þeim mikilvæga árangri sem stuðlað hefur að bættri heilsu þjóðarinnar. Gerum ekki sömu mistök og þegar sígarettur voru markaðssettar. Það gæti reynst okkur dýrkeypt því rafrettur gætu reynst úlfur í sauðargæru."

Sjá alla greinina hér.

Eiga rafsígarettur heima á almennum markaði?

,,Vitað er að nikótín berst út í andrúmsloftið þar sem rafsígarettur eru notaðar og berst óhjákvæmilega í vit nærstaddra og útsetur þá fyrir aukaverkunum nikótíns. Upplýsingar sem þessar gefa tilefni til að huga að því hvort rafsígarettur eigi ekki að lúta sömu takmörkunum og tóbak um reykingarstaði og sölu skv. lögum um tóbaksvarnir nr. 6/2002 og reglugerð nr. 326/2007 um takmarkanir á tóbaksreykingum.“ Þetta segja Sigríður Ólafsdóttir og Kristín Loftsdóttir hjá eftirlitssviði Lyfjastofnunar í grein á dv.is í júní 2014.

Sjá greinina hér.

Lítið eftirlit með rafrettum

Ólög­legt er fyr­ir lögaðila að flytja inn rafrettu­vökva með nikó­tíni án þess að sótt hafi verið um markaðsleyfi hjá Lyfja­stofn­un en nikó­tín­vökvi er skil­greind­ur sem lyf hjá stofn­un­inni. Þrátt fyr­ir það er auðvelt að nálg­ast nikó­tín­vökva í rafrett­ur í ýms­um sjopp­um og vef­versl­un­um, m.a. hafa inn­flytj­end­ur aug­lýst nikó­tín­vökva til sölu á Face­book.
Sjá mbl.is

,,Útbreiðsla rafrettunnar meðal reyklausra, sérstaklega ungmenna, er áhyggjuefni og vísbendingar eru um að rafrettur gætu aukið reykingar í þeim hópi.“

Hans Jakob Beck, yfirlæknir lungnasviðs Reykjalundar, sérfræðingur í lyflækningum og lungnasjúkdómum‚ MPH, fjallar um rafrettur í grein í Læknablaðinu í fyrra og segir þar meðal annars: ,,Viðbrögð yfirvalda og ýmissa læknasamtaka hafa einkennst af áhyggjum og óvissu. Stefnuyfirlýsing Bandarísku hjartalæknasamtakanna leggur meðal annars til stangt aðhald við aðgengi barna og unglinga að rafrettum, mælir með að þær verði settar undir lög um tóbak og leggur til að Matvæla- og lyfjastofnuninni, FDA, verði falið að hafa aukið eftirlit. Enn sem komið nær eftirlit stofnunarinnar með rafrettum aðeins til notkunar við reykingameðferð. Sameiginleg stefnuyfirlýsing alþjóðaráðs lungnalæknafélaga gengur lengra og leggur hreinlega til rafrettubann þar til meira er vitað um heilsufarsleg áhrif, en að öðrum kosti ættu eftirlit og reglur að vera eins og með lyfjum og tóbaki.“ Hann segir einnig í greininni: ,,Útbreiðsla rafrettunnar meðal reyklausra, sérstaklega ungmenna, er áhyggjuefni og vísbendingar eru um að rafrettur gætu aukið reykingar í þeim hópi. Eimur rafrettunnar inniheldur skaðvænleg efni, en í miklu minna mæli en sígarettureykur og umhverfisáhrif rafrettunnar felst aðeins í útöndunarlofti notandans, ekki reyk frá bruna eins og í tilfelli sígarettunnar.“ Sjá alla greinina hér.

Vika 43 – forvarnavikan 2016

Rafrettur og unga fólkið

Verum vakandi

Vika 43 er árlegt samstarfsverkefni FRÆ og SAFF (Samstarfs félagasamtaka í forvörnum. Rúmlega 20 félagasamtök eiga aðild að því.) frá árinu 2004. Markmiðið er m.a. að varpa ljósi á forvarnastarf sem unnið er á vettvangi félagasamtaka og vekja athygli landsmanna á mikilvægi forvarna, einkum forvörnum gagnvart börnum og unglingum. Í Viku 43 hefur sjónum einkum verið beint til foreldra og annarra uppalenda, hlutverks þeirra og ábyrgðar.

Stöndum vörð um góðan árangur í tóbaksvörnum meðal barna og ungmenna

Í ár verður sjónum beint að aukinni notkun ungmenna á svokölluðum rafettum. Nýjar kannanir sýna að rúmlega 25% nemenda í 10. bekk hafa prófað rafrettur. Góður árangur hefur náðst hér á landi í að ná niður tóbaksreykingum ungmenna þannig að vakið hefur heimsathygli. Þess vegna er það áhyggjuefni að notkun á rafrettum skuli á stuttum tíma hafa náð svona mikilli útbreiðslu meðal unga fólksins. Mikilvægt er að snúa þessari þróun við. Vakin verður athygli á þessu í Viku 43 með fræðslu og upplýsingum og stjórnvöld verða hvött til þess að setja reglur sem tryggi að börn og unglingar hafi ekki aðgang að rafrett­um.

Vika 43 stendur yfir dagana 24. - 30. október. Haldinn verður kynningar- og fræðslufundur um verkefnið þegar það hefst og honum fylgt eftir með fræðslufundum utan höfuðborgarsvæðisins. Gerður verður stuttur fræðsluþáttur um rafrettur, eiginleika þeirra og mögulega skaðsemi. Þessi þáttur verður notaður á fræðslufundunum.